Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) afhenti Guðrúnu Lárusdóttur útgerðarkonu í Stálskipum þakkarviðurkenningu félagsins við athöfn í fyrradag. Guðrún sagði þau hjónin hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi við reksturinn að hafa haft góðar áhafnir á skipunum.

Stálskip var stofnað árið 1970 og er á meðal 150 stærstu fyrirtækja landsins. Í dag gerir Stálskip út togarann Þór HF en hjá því starfa um 40 manns. Guðrún er formaður Útvegsmannafélags Hafnarfjarðar og situr í stjórn LÍÚ.