Síðustu daga hefur verið annríki hjá starfsmönnum netaverkstæðis Hampiðjunnar í Reykjavík enda virðist loðnuvertíðin vera hafin fyrir alvöru.Fjöldi skipa veiðir nú loðnu í grunnnætur austur undir Hornafirði og önnur eru sem óðast að skipta djúpnótunum út og taka grunnnæturnar um borð.
Faxi RE var í höfn við höfuðstöðvar Hampiðjunnar við Skarfagarða í Reykjavík í fyrradag og Bjarni Ólafsson AK í höfn í sömu erindagjörðum.
,,Við geymum þau veiðarfæri sem ekki er verið að nota hjá Hampiðjunni og þar er gert við það sem aflaga hefur farið,“ segir Albert í viðtali á vef Hampiðjunnar. Hann reiknar með því að starfsmennirnir á netaverkstæðinu muni hafa nóg að gera á næstunni enda var djúpnótin, sem sett var í land í morgun, ekki í lagi eftir síðustu veiðiferð.
,,Við vorum þá vestur á Hornbanka og lentum í því að fá hnúfubak í nótina. Hann hefur skemmt hana því hún virkaði ekki vel eftir að við losnuðum við hvalinn úr nótinni. Við vorum svo á Vopnafirði sl. sunnudagskvöld með rúmlega 900 tonna afla og þegar búið var að landa tók við rúmlega 30 tíma sigling til Reykjavíkur.“