Stærsta heilsumatvörukeðja heims, Whole Foods í Bandaríkjunum, ætlar að litamerkja umbúðir á fiski sem þeir selja svo neytendur velkist ekki í vafa um gæði vörunnar.
Gæðafiskurinn fær að sjálfsögðu grænt merki sem þýðir að hann sé veiddur á fullkomlega sjálfbæran hátt. Gnægð sé til af honum og hann fangaður með vistvænum veiðarfærum.
Gult merki gefur til kynna að um fisk sé að ræða sem sé góður kostur fyrir neytandann þótt hugsanlega megi veiða fiskinn á annan og betri hátt. Rautt merkir fisk sem er í hættu vegna ofveiði eða hann veiddur með veiðarfærum sem skaði lífríki sjávar.
Þetta er talið vera fyrsta litakerfið til að meta gæði fisks hjá smásöluverslunum í heiminum. Whole Foods hefur selt fisk um áraraðir sem vottaður er af MSC. Nýja litakerfið kemur til viðbótar og er notað á fisk sem ekki hefur farið í vottun hjá MSC.
Heimild: www.fishupdate.com