Rækjuveiðar við Vestur-Grænland munu minnka úr 135.000 tonnum á þessu ári í 110.000 tonn á því næsta ef farið verður að ráðum fiskifræðinga.
Á árunum 2005-2008 voru veidd árlega um 150.000 tonn af rækju við Vestur-Grænland. Mörg undanfarin ár hefur verið lítið af 2ja ára rækju í stofninum en rækjan kemur inn í veiðina 4-5 ára gömul. Samhliða þessu hefur útbreiðslusvæði rækjunnar minnkað.
Í útreikningum fiskifræðinga er tekið tillit til aukinnar þorskgengdar síðustu árin við Grænland en þorskurinn étur rækju sem kunnugt er. Nú segja fiskifræðingar að á árinu 2009 hafi verið minna um þorsk en áður á rækjuslóðinni og það geti verið ástæða þess að rækjustofninn hefur ekki minnkað milli áranna 2008 og 2009.
Veiðiráðgjöf fyrir Austur-Grænland er óbreytt frá fyrra ári eða 12.400 tonn af rækju.
Frá þessu er skýrt á vef Náttúrufræðistofnunar Grænlands ( natur.gl ).