Færeyska varðskipið Tjaldrið stóð fjóra franska togara að ólöglegum veiðum inni á lokuðu svæði austan Fuglaeyju í gær. Skipin voru á tvíburatrolli tvö og tvö saman. Færeyska fiskveiðieftirlitið hafði tilkynnt um skyndilokun á svæðinu hinn 13. júní.

Skipin voru færð til hafnar þar sem mál þeirra verður tekið fyrir. Í frétt á vef færeyska útvarpsins segir að áhafnir skipanna séu franskar en vísbendingar séu um að eigendur þeirra séu Færeyingar og Hollendingar.

UPPFÆRT: Skipin eru frá útgerðinni Euronor sem er í eigu UK Fisheries, sem Samherji og hollenska sjávarútvegsfyrirtækið P&P eiga í sameiningu.