Bæjarráð Ísafjarðarbæjar telur að hvalveiðar og hvalaskoðun eigi illa samleið ef ekki er hugað að sambúð þessara atvinnugreina. „Bæði minnkað það sem af er tekið en einnig geta veiðarnar, löndun og verkun haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Ein leið er að stofna griðasvæði eins og bréfritarar leggja upp með en einnig má hugsa sér aðrar takmarkanir í tíma eða rúmi,“ segir í bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á fundi þess 7. apríl síðastliðinn. Þar bregst bæjarráðið við erindi Sjóferða þar sem óskað var eftir jákvæðum undirtektum Ísafjarðarbæjar vegna erindis Samtaka ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtaka Íslands um tillögu til ráðherra að Ísafjarðardjúp, allt frá mynni þess, verði skilgreint griðasvæði hvala með reglugerð settri af ráðherra.
Bæjarráðið telur að griðasvæði sem næði yfir allt Ísafjarðardjúp væri of takmarkandi fyrir hvalveiðar sem leyfi hafa verið gefin út fyrir. „Bæjarráð telur að hægt væri að ná sama markmiði með því að stofna griðasvæði sem væri innan svæðis sem afmarkað er af Stigahlíð, Vébjarnarnúpi, Innra Skarði á Snæfjallaströnd, Ögurnesi, Folfæti og Arnarnesi. Þar sem hvalaskoðun er ekki enn stunduð allt árið mætti griðasvæðið gilda frá maíbyrjun til septemberloka. Góð samskipti milli hvalveiðifyrirtækis og hvalaskoðunarfyrirtækja eru mikilvæg hvernig sem niðurstaða ráðuneytisins verður, segir í bókun ráðsins.