Atvinnuvegaráðuneytið hefur stækkað griðasvæði hrefnu í Faxaflóa en þó var ekki gegnið eins langt í þeim efnum og nefnd, sem atvinnuvegaráðherra skipaði, lagði til.

Í ljósi þess að hvalveiðitímabil er nú að hefjast óskaði ráðherra eftir tillögum nefndar, sem  nú er að störfum í tengslum við stefnumörkun í hvalveiðimálum, um það hvernig griðasvæði hvala skyldi afmarkað í Faxaflóa.

„Meirihluti nefndarinnar telur ljóst að umfang hvalaskoðunar og þjóðhagslegt mikilvægi hennar hafi aukist á undanförnum árum og mikilvægt sé að umgjörð hvalaskoðunar og hvalveiða sé með þeim hætti að ásættanlegt teljist fyrir báðar atvinnugreinar.

Tillaga meirihluta nefndarinnar er sú að griðasvæði hvala verði stækkað í Faxaflóa og verði frá Garðskagavita og beina línu að Arnarstapa.
Við ákvörðun um afmörkun griðasvæðisins í Faxaflóa hafði ráðherra að leiðarljósi hagsmuni hvalaskoðunar- og hvalveiðifyrirtækja og jafnframt var stuðst við tillögur meirihluta nefndarinnar.  Ákvörðun ráðherra um nýtt griðasvæði hvalveiða í Faxaflóa gengur skemur en tillögur meirihluta nefndarinnar. Nýtt griðasvæði hvala í Faxaflóa afmarkast nú frá Garðskagavita og beina línu norður að Skógarnesi. Ákveðið var hins vegar að griðasvæði hvala á Skjálfandaflóa skuli vera óbreytt,“ segir í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins.