„Þetta var mikill gleðidagur,“ segir Birgir Mikaelsson, formaður Björgunarsveitarinnar Garðars á Húsavík sem síðastliðinn föstudag fékk afhentan nýjan björgunarbát frá Rafnari.
Nýi báturinn, sem er af Rafnar 1100 gerð, leysir af hólmi eldri bát af gerðinni Atlantik 75 sem kominn var til ára sinna. Nýi báturinn er mun stærri og hraðskreiðari og auk þess yfirbyggður að hluta.
„Þetta er bara gríðarlegur munur,“ svarar Birgir spurður um muninn á bátunum tveimur. Miklu skipti til dæmis að nýi báturinn sé yfirbyggður með fjaðrandi stóla fyrir fjóra menn sem geti þannig verið inni.
Óþreyttir á vettvang

„Mannskapurinn er náttúrlega miklu óþreyttari þegar hann kemur á vettvang. Við erum búin að vera á opnum bát öll þessi ár og farið út í hvaða veður sem er,“ segir Birgir og nefnir sérstaklega hönnun Össurar Kristinssonar á botnlagi nýja bátsins sem sé ný í heiminum. „Hann límir sig meira við sjóinn og er ekki að höggva á ölduna eins og aðrir hraðskreiðir bátar gera.“
Báturinn kostar að sögn Birgis 80 milljónir króna. Ríkið leggi til helming þeirrar upphæðar, sveitarfélagið Norðurþing 20 milljónir og afganginn gefi fyrirtæki á svæðinu og aðrir velunnarar. Starfssvæðið er Skjálfandi og nágrenni.
Mikil útgerð er frá Húsavík, ekki síst á vegum hvalaskoðunarfyrirtækja sem eru meðal þeirra sem styrkja kaupin og munu síðar njóta þess aukna öryggis sem hinn nýi og öflugi bátur veitir.
Gamli báturinn reynst vel
Báturinn hefur fengið nafnið Villi Páls í höfuðið á Vilhjálmi Pálssyni, fyrrverandi formanni björgunarsveitarinnar og frumkvöðul að stofnun hennar. Vilhjálmur var mættur á bryggjuna til að fagna komu nafna síns á föstudaginn og það voru líka björgunarsveitarmenn frá Akureyri og Siglufirði sem sigldu til Húsavíkur á sínum björgunarbátum.
„Þeir stoppuðu og komu í kaffi. Það hafa ábyggilega verið um hundrað og fimmtíu manns á bryggjunni,“ segir Birgir.
Sem fyrr segir á björgunarsveitin gamlan Atlantik 75 bát og heitir hann Jón Kjartans. Að sögn Birgis er blaðran í honum léleg og erfitt að fá nýja. Úr því eigi að þó að bæta. „Þá verður hann góður bátur aftur . Hann er búinn að reynast okkur gríðarlega vel.“
Stofnuðu björgunarsveit í kjölfar sjóslyss árið 1959
Björgunarsveitin Garðar var stofnuð árið 1959 í kjölfar sjóslyss þegar Maí TH194 fórst með tveimur mönnum. Frá þessu segir á Facebooksíðu sveitarinnar.

„Þá var hávær umræða í samfélaginu um öryggismál sjómanna. Formaður Kvennadeildar Slysavarnafélagsins á Húsavík, Jóhanna Aðalsteinsdóttir eða Jóhanna í Grafarbakka kom að máli við Vilhjálm Pálsson eftir þennan atburð og ræddi við hann um utanumhald og rekstur á fluglínutækjum til sjóbjörgunar. Úr varð að Villi Páls kvaddi til fundar átján einstaklinga sem stofnuðu félagsskapinn og úr varð björgunarsveitin Garðar. Starfsemi sveitarinnar hefur æ síðan verið lykilþáttur í öryggi borgaranna og veitt aðstoð þegar vá ber að höndum,“ er sagan rakin á síðu Garðars.
Einnig kemur fram að Villa Páls hafi verið veitt heiðursviðurkenning Slysavarnafélagsins Landsbjargar fyrir störf sín í þágu björgunarstarfa og slysavarna.
„Villi Páls var fyrsti formaður sveitarinnar og veitti henni forystu í 22 ár. Hann hefur komið að björgun og stjórnun stórra og smárra aðgerða eins og þegar Hvassafellið strandaði við Flatey, eldgosin í Mývatnssveit og Kópaskerskjálftinn reið yfir svo dæmi séu tekin. Villi Páls var umdæmisstjóri Slysavarnafélags Íslands á Norðurlandi í áratug á sínum tíma og stjórnaði bæði æfingum og aðgerðum á vegum þess.“