,,Það er gríðarlegt magn af gullkarfa að þvælast fyrir og ýsu má finna á öllum miðum,” segir Arnar Haukur Ævarsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE í viðtali á vefsíðu Brims.

Segir Arnar Haukur fínasta fiskerí á Halamiðum en að aflinn sé mjög blandaður.

Er rætt var við Arnar Hauk í gær var veiðiferðin rétt rúmlega hálfnuð. Um 600 tonnum, miðað við fisk upp úr sjó, hafi verið landað í svokallaðri millilöndun í síðustu viku. Fyrri hluta veiðiferðarinnar hafi að mestu verið á SV miðum.

„Við vorum einu sinni sem oftar að leita að ufsa. Það var ekki mikið um hann en við fengum ágætan karfaafla. Eitthvað var líka um ýsu og ufsa á Fjöllunum þar sem vorum lengst af. Við fórum svo norður á Látragrunn og Flugbrautina og fengum þar mokafla af hreinni ýsu. Aflinn fór mest í um tonn á mínútu þannig að það má segja með sanni að vinnslugetan hafi skammtað okkur aflann,” er haft eftir Arnari Hauki á brim.is.

Áfram segir Arnar Haukur að eftir millilöndunina hafi hann ákveðið að byrja veiðarnar á Flugbrautinni.

,,Ýsuveiðin hafði ekkert gefið eftir. Við fórum svo í grunnkantinn og unnum okkur þaðan norður á Hala. Ufsinn hefur komið með en hér á Halanum eru það fyrst og fremst gullkarfinn og ýsan sem ráða ríkjum,“ er haft eftir Arnari Hauki.