Þrjú alþjóðleg rannsókna- og nýsköpunarverkefni sem Matís kemur að fá samtals jafnvirði um 2,5 milljarða króna í styrki í gegnum Horizon Europe rammaáætlunina.

Um er að ræða verkefni er miða að því að draga úr umhverfisáhrifum fiskveiða og fiskeldis, auk þess að gera greinunum betur kleift að mæta afleiðingum loftslagsbreytinga. Auk Matís er fjöldi annarra íslenskra fyrirtækja og stofnana í lykilhlutverkum í þessum verkefnum, og rennur því rúmlega fimmtungur af áðurgreindum styrk, eða um 600 milljónir króna, til rannsókna- og nýsköpunarstarfsemi hér á landi

Að veiða rétta fiskinn

Jónas R. Viðarsson.
Jónas R. Viðarsson.

Stærsta verkefnið í þessum hópi kallast MarineGuardian, en að því koma 21 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar að úr heiminum. Verkefnið hlaut 1,2 milljarða króna styrk og koma 35 prósent þeirrar upphæðar, eða um 420 milljónir króna, í hlut íslenskra aðila. Verkefninu er stýrt af Jónasi R. Viðarssyni hjá Matís, en aðrir innlendir þátttakendur eru Hafrannsóknastofnun, Trackwell, Hampiðjan og Brim.

„Burtséð frá því að hér sé verið að fá fjárhagslega innspýtingu í íslenskt rannsókna- og nýsköpunarsamfélag þá er þetta einfaldlega gífurlega spennandi verkefni þar sem á að reyna að stuðla að minni umhverfisáhrifum af fiskveiðum. Þarna á að þróa mikinn fjölda af lausnum, bæði hvað varðar veiðarfæri og hugbúnað til að gera veiðarnar skilvirkari. Eitt að því sem við viljum ná fram er að veiða rétta fiskinn á réttum tíma og í réttum gæðum, auk þess að koma í veg fyrir að verið sé að veiða óæskilegan afla,“ segir Jónas.

Þróa fjörutíu lausnir

Margs konar lausnir verða þróaðar að sögn Jónasar. „Í allt stendur til að þróa um fjörutíu lausnir, sem eru misjafnlega langt komnar í dag. Meðal þess sem við munum gera er að prófa lausnir eins og ný veiðarfæri með tilraunum í þartilgerðum tönkum, um borð í rannsóknaskipum og svo endanlega á   fiskiskipum,“ segir hann.

Um þessar mundir eru sjávarútvegsfyrirtæki um allan heim að byrja að huga að innleiðingu á Evróputilskipun varðandi sjálfbærniskýrslur (Corporate Sustainability Reporting).

„Það felur í sér að öll stærri fyrirtæki þurfa á hverju ári að gefa út skýrslu um umhverfisáhrif sinnar starfsemi og hvað þau eru að gera til þess að draga úr þeim,“ segir Jónas.

Verði efnahagslega sjálfbært

„Meðal þess sem við munum gera í verkefninu er að fást við hvernig þetta verður best innleitt og þá hvernig fyrirtækin geta nýtt sér þetta þannig að gerð þessara skýrslna verði ekki bara krafa sem sett er á þau heldur til að geta nýtt sér þetta til að vera fremst í sínum flokki.  Þetta er krafa sem sjávarútvegsfyrirtæki munu þurfa að uppfylla einfaldlega til að geta selt fisk í Evrópu, og mun útheimta umtalsverða gagnasöfnun og aðlögun“ útskýrir Jónas.

Þessi nýsköpunarverkefni snúast ekki eingöngu um umhverfismál, heldur líka um hagkvæmni.

„Við vitum að umhverfisáhrif eða minna kolefnisspor er ekki endilega nægur hvati til að stuðla að breytingum, heldur verður þetta líka að vera efnahagslega sjálfbært. Árangursrík innleiðing þarf annaðhvort að draga úr kostnaði eða auka tekjur á einhvern hátt,“ segir Jónas.

Greina fiskana í sjónum

Þróun í veiðarfærum hefur verið mikil á undanförnum misserum, þó svo að það sé ekki endilega sú mynd sem almenningur hefur að sögn Jónasar. „En við Íslendingar erum meðal þeirra sem eru fremstir í flokki þegar kemur að þróun veiðarfæra,“ segir hann.

Við veiðar er stuðst við ýmsan vél- og hugbúnað, eins og myndavélar, tölvusjón og gervigreind til að hjálpa við að taka ákvarðanir.

„Við erum komin á þann stað núna að við erum með tækni sem lærir sjálf að greina fiska í sjónum og reyna að bregðast við því, greina botninn og hvaða áhrif veiðarnar eru að hafa á botninn,“ segir Jónas.

Oft eru þessar lausnir hins vegar enn bara inni á rannsóknarstofunum, og er það markmið MarineGuardian að koma þeim í almenna notkun.

Fjölbreytt flóra þátttakenda

Sem fyrr segir er 21 þátttakandi í verkefninu, þar af fimm á Íslandi. Meðal erlendra aðila sem koma að verkefninu er háskóli og stofnun í Nýfundnalandi. „Þeir eru mjög öflugir í veiðarfæraþróun og eru með einn stærsta tilraunatank í heimi þar sem þeir geta gert tilraunir með veiðarfæri,“ segir Jónas.

Næst nefnir Jónas fyrirtækið Espersen í Damörku og danska tækniháskólann DTU. „Espersen er einn af stærstu dreifingaraðilum á fiski í Evrópu,“ segir hann. Þá er Alþjóða hafrannsóknaráðið (ICES), sem er með skrifstofur í Danmörku, einnig í lykilhlutverki í verkefninu.

Rannsóknaráð Spánar, CSIC, sem hafrannsóknastofnun landsins heyrir undir, er einnig aðili að verkefninu. Á Spáni er líka Azti, sem er stofnun á borð við Matís, auk tæknifyrirtækjanna Datafish og Zunibal. „Þau vinna úr gögnum varðandi veiðar og þróa lausnir til að stýra veiðum,“ segir Jónas.

Spá hvar fiskurinn verður

Færeyska fyrirtækið Sjókovinn er með í verkefninu og þá er grænlenski sjávarútvegsrisinn Royal Greenland þátttakandi. En einnig er töluverð þátttaka frá Noregi. Þar koma Sintef, Catchwise og Melbu koma að verkefninu.

„Sintef er rannsóknastofnun, Melbu er tæknifyrirtæki sem mun þróa sjálfvirka aflaskráningu með tölvusjón og Catchwise er einkafyrirtæki sem er með lausn um veiðispá sem er mjög svipuð og lausní slenska sprotafyrirtækisins Greenfish. Þeir geta spáð fyrir um hvar fiskurinn verði, byggt á bæði gögnum aftur í tímann, rauntímagögnum úr gervihnöttum og alls konar umhverfisgögnum,“ segir Jónas.

Sömuleiðis koma að verkefninu háskólar í Portúgal og Bretlandi. „Að auki gegnir umhverfisvottunarfyrirtækið Marine Stewardship Council mikilvægu hlutverki í MarineGuardian. Þannig að þetta er ótrúlega flottur hópur,“ segir Jónas.

Brugðist við loftslagsbreytingum

Hin verkefnin tvö sem um ræðir eru í raun systurverkefni. Markmið þeirra er aðþróa mótvægis- og aðlögunaraðgerðir gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga fyrir fiskveiðar og fiskeldi. MeCCAMverkefnið mun vinna með fiskveiðar og OCCAM með fiskeldi. Hvort verkefni um sig hefur hlotið styrk upp á tæpar 700 milljónir króna, og koma um 107 milljónir króna í hlut íslenskra þátttakenda.

MeCCAM verkefninu er stýrt af Sjókovanum í Færeyjum, en Matís stýrir verkþætti og tilvikarannsóknarsvæði. Að verkefninu koma sextán þátttakendur vítt og breitt frá Evrópu, en innlendir þátttakendur auk Matís eru Trackwell, Brim og Stika umhverfislausnir.

OCCAM verkefnið er leitt af Nofima í Noregi, en að því koma 22 þátttakendur. Matís stýrir verkþætti og tilvikarannsóknarsvæði eins og í OCCAM. Hér á Íslandi er það Samherji fiskeldi sem tekur þátt í verkefninu auk Matís.