Meðal viðfangsefna á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðustu viku voru hugmyndir um aukið samstarf milli vísindamanna og sjómanna um hafrannsóknir. Sérstök málstofa var helguð þessu efni og það var einnig rætt á málstofu um loðnuna þar sem Birkir Bárðarson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, sagði frá auknu samstarfi við útgerðina um loðnuleit á síðustu árum. Einnig sagði Geir Zoega, skipstjóri á Polar Amaroq, frá sinni reynslu af þessu loðnuleitarsamstarfi, en skip hans er eitt af þeim skipum sem tekið hafa þátt í loðnurannsóknum.

Loðnubrestur tvö ár í röð og áhrif hans á byggðarlög og útgerðir varð til þess að stjórnvöld settu aukið framlag til loðnurannsókna árið 2018. Var það hugsað til fimm ára og að öllu óbreyttu fellur það því niður í lok næsta árs. Útgerðir tóku jafnframt þátt í að fjármagna starfsemina að hluta, með því að leggja til skip og fjárfesta í bergmálsmælum til að nota um borð í skipunum.

Hlusta á sitt fólk

Gunnþór Ingason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupstað, sagði ástæðuna fyrir því að þetta var gert einfaldlega vera þá að „við sem erum í landi að fylgjast með hlustum auðvitað á okkar sjómenn og skipstjóra,“ sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, á málstofunni. „Í gegnum tíðina hefur oft verið mikill meiningarmunur á milli sjómanna og vísindamanna og ég hef grun um að það megi brúa þetta bil mikið með því að fá bara sömu gögn úr fiskiskipunum okkar og vísindamennirnir eru að fá.“

Hann sagði nauðsynlegt að efla þetta samstarf á mörgum vígstöðvum. Með samstarfi um gagnasöfnun geti sjómenn og útgerðarmenn séð hlutina með sömu augum og vísindamennirnir.

„Ég held þetta hafi dýpkað mjög skilninginn á þessum loðnurannsóknum,“ sagði Gunnþór.

Jafnframt sagði hann gríðarlega mikið af gögnum safnast hjá útgerðarfyrirtækjunum og fólk úr greininni og vísindunum þurfi að sameinast um að nýta og vinna með þessi gögn.

Opin fyrir samstarfi

Hann sagðist raunar telja að sjávarútvegurinn á Íslandi hafi almennt verið mjög opinn fyrir því að fjárfesta í tækjabúnaði til rannsókna og bera kostnað af vísindafólki innan sinna vébanda.

„Talandi um peninga, þá er miklu meira í húfi heldur en einhverjar milljónir í þessum stofnum sem við erum að nýta, bæði fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu. Ég held að greinin sé mjög opin fyrir hvers konar samstarfi.“

Gunnþór vék einnig máli sínu að því fjármagni sem stjórnvöld verja til hafrannsókna.

„Til að setja þetta í stóra samhengið þá sló ég því upp að 100 þúsund tonna loðnukvóti núna myndi gefa beint í ríkissjóði eitthvað um tvo til tvo og hálfan milljarð í formi skatttekna. Leiðangurinn sem Birkir setti upp áðan 2020 þegar þeir voru með þessi skip öll sýnist mér að leiðangurinn hafi kostað 120 milljónir. Stundum verðum við að horfa á rannsóknir sem fjárfestingu en ekki kostnað.“

Aukaverkin

Hann nefndi sem dæmi að um þessar mundir sé að fara af stað samstarf um karfarannsóknir, enda horfi ekki vel með karfaveiðar fari svo fram sem horfir.

„Þar er til dæmis fyrirtæki komið núna með búnað til þess að myndgreina karfa og það verður sett í gagnagrunn sem er aðgengilegur. Við getum í dag í raun og veru safnað gríðarlegu magni af gögnum. En það er eitt að safna gögnum og annað að vinna úr því. Þar held ég að vanti oft fjármagn, og það er óvinsælt kannski að tala um peninga en ég ætla að segja bara það að Hafrannsóknastofnun er nánast með sömu peninga í dag og 2015. Svo kemur pólitíkin og hælir sér af því að það séu settar 150 milljónir sérstaklega í loðnurannsóknir, en á sama tíma er verið að skerða kjarnastarfsemina þannig að það er í raun og veru verið að færa á milli vasa. Eftir stendur að stofnunin er alltaf jafnsett.“

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, tók undir það sem Gunnþór sagði „um fjármögnunina og vilja starfsmanna og vísindamanna til þess að leysa málin á sem hagkvæmastan hátt þjóðinni til heilla.“

Stóri vandinn sé ekki skortur á vilja heldur þær skorður sem fjárlög setja starfseminni.

„Þetta eru aukaverk umfram það sem við höfum starfsmenn til, og það þarf auðvitað annað hvort að hlaupa hraðar eða bæta við starfsafla til þess að vinna þetta. Þetta höfum við hingað til gert í hjáverkum.“

Nýr vettvangur rannsókna?

Á ráðstefnunni voru nefndar hugmyndir um það hvort stofna þyrfti annan vettvang fyrir hafrannsóknir, utan Hafrannsóknastofnunar, og meðal annars hvort Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), ættu hugsanlega að standa fyrir slíku.

Anna Heiða Ólafsdóttir, sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, sagði frá nokkrum dæmum um slíkt frumkvæði frá útgerðum og hagsmunaðilum í Noregi, Danmörku, Hollandi og Skotlandi.

Guðmundur Þórðarson fiskifræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, áður sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, sagði það vissulega áhugavert að velta fyrir sér hvort SFS ætti að fara í þá átt að stunda sjálft rannsóknir en sér hugnaðist þó betur að útgerðin væri í samstarfi um slíkt við Hafrannsóknastofnun.

„Þá er það kannski þannig að Hafró setur línurnar og sjómennirnir hjálpa til, geta aflað gagnanna og síðan vinnur Hafró úr. Þannig skapast gott samtal.“

Hröð tækniþróun hefur einnig verið í hafrannsóknum undanfarið og ekkert lát er á henni. Guðmundur, Birkir og fleiri sögðust sannfærðir um að framtíðin í hafrannsóknum verði meðal annars í því að gögnum verði safnað með sjálfvirkum hætti og svo verði notast við sjálfstýrð för sem farið geta um allt og safnað gögnum.

„Þetta er rosalega flott og ég er algerlega sammála Birki að þetta er framtíðin,“ sagði Guðmundur. „En ég held að það sé ágætt að leyfa Norðmönnum að sníða af vankantana og koma þessu í góða drift áður en við hlaupum til.“