Heildarveiði á grásleppuvertíðinni hefur gefið um 7 þúsund tunnur af hrognum til þessa. Allt stefnir í að framleiðslan verði svipuð og í fyrra, eða 11.700 tunnur, að því er Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við Fiskifréttir.
Grásleppuveiðum lýkur í dag hjá þeim sem fyrstir byrjuðu veiðar fyrir Norður- og NA-landi. Örn sagði að veiði á því svæði hefði að vísu verið slakari en á síðustu vertíð. Slæmt tíðarfar hefði gert mönnum erfitt fyrir en engu að síður væri ljóst að grásleppugengd hefði verið minni á norðursvæðinu en í fyrra. ,,Miðað við þetta verð ég að segja að ég er nokkuð undrandi hvað veiðarnar hafa gengið vel í heild. Veiðin er nánast sú sama og hún var á sama tíma í fyrra eða um 7 þúsund tunnur, sem helgast af því að veiðidagar nú eru 12 fleiri en í fyrra,“ sagði Örn.
Mestum afla hefur verið landað á Drangsnesi eða um 90 tonnum sem jafngildir um 740 tunnum af söltuðum hrognum. Örn sagði að grásleppuveiðin í Húnaflóa hefði gengið ljómandi vel. Grásleppukarlar í norðanverðum Breiðafirði voru að hefja veiðar og fengu þeir ágætisskot í byrjun. Veiðar í innanverðum Breiðafirði eru ekki enn hafnar.
Örn sagði að miðað við það hvernig veiðin hefði gengið í ár stefndi hún í það að verða svipuð og í fyrra en vertíðin þá skilaði 11.700 tunnum af hrognum.