Grásleppuveiðar við Ísland hafa nú verið vottaðar samkvæmt stöðlum MSC, sem byggðir eru á viðmiðunarreglum FAO um sjálfbærar veiðar. Frá þessu er skýrt á vef Landssambands smábátaeigenda.

Í lokaferli umsóknarinnar voru gefnir 15 dagar til að gera efnislegar athugasemdir.  Engar athugasemdir bárust og er margra mánaða umsóknarferli þar með lokið og viðurkenning fengin. Vottunarstofan Tún ehf. annaðist vottunarferlið. Þeim söluaðilum sem gerast aðilar að vottuninni er nú heimilt að MSC merkja grásleppuhrogn héðan.

Á vef LS um málið segir: „MSC merking ætti að gefa Íslandi forskot í sölu hrogna, en Grænlendingar eiga töluvert í land með að ná vottun.  Bent skal á að þegar vottunin er komin í höfn mun fátt geta réttlætt að grásleppa og grásleppuhrogn héðan verði lengur á válista Alþjóða náttúruverndarsjóðsins.  Vera hennar þar hefur gert vörunni erfitt fyrir í Svíþjóð og Þýskalandi.“