Grásleppuveiði má hefjast 23. mars samkvæmt reglugerð sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað. Landssamband smábátaeigenda greinir frá þessu á vef sínum .
Heimilt verður að veiða í 25 daga samfellt, en leyfin verða bundin við ákveðin veiðisvæði og tímabil. Veiðisvæðin verða sjö og veiðitímabilið er frá 23. mars til 30. júní, að undanskildum innanverðum Breiðafirði þar sem tímabilið verður frá 20. maí til 12. ágúst.
Jafnframt er Fiskistofu gert skylt að stöðva veiðar, alls staðar nema í innanverðum Breiðafirði, þegar heildarveiðin á þeim svæðum (að undanskildum innanverðum Breiðafirði sumsé) er komin í 78 prósent af ráðlagðri heildarveiði. Að sama skapi á að stöðva veiðar í innanverðum Breiðafirði þegar veiðin þar kemst í 22 prósent af ráðlagðri heildarveiði.
Hafrannsóknastofnun mun ekki birta ráðgjöf ársins fyrr en 31. mars.