Starfsfhópur um endurskoðun á fyrirkomulagi hrognkelsaveiða hefur skilað skýrslu sinni til Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Greinargerð nefndarinnar hefur verið lögð fram í Samráðsgátt stjórnvalda, þar sem kostur gefst á að senda inn umsagnir til 11. október næstkomandi.

Landssamband smábátasjómanna greindi frá þessu á vef sínum í dag .

Nefndin fékk það verkefni að fara yfir veiðistjórnun á hrognkelsaveiðum og gera tillögu um breytingar ef ástæða þætti til. Í niðurstöðum starfsfhópsins er bent að „verði ákveðið að breyta veiðistjórn í grásleppu á þann hátt að veiðunum verði stjórnað á grundvelli aflamarks verði viðmiðunartími að vera rúmur.“

Hópurinn leggur því til að aflaheimildum verði í upphafi úthlutað á grundvelli veiðireynslu síðustu sex ára, en þó þannig að miðað verði við þrjú bestu árin af sex.

„Að mati starfsfhópsins tekur þessi aðferð tillit til aðstæðna og að veiðstjórn hefur verið óbreytt í áratugi. Auk þess er bent á að aflabrögð milli svæða geta verið misjöfn á milli ára og sá mismunur jafnist þá út við 6 ára tímabil,“ segir í greinargerðinni.

Í greinargerðinni er farið yfir bæði kosti og galla núverandi fyrirkomulags. „Helsti ókosturinn við núverandi veiðistjórnun er að hún er ómarkviss með tilliti til heildarafla,“ segir þar. „Breytilegt er milli ára hversu margir virkja leyfin sem skapar mikla óvissu í veiðistjórnun.“

Hópurinn telur að verði veiðum í grásleppu stjórnað á grundvelli aflahlutdeildar megi ná fram markvissri veiðistjórnun. Meðal annars verði þá hægt að færa aflamark milli báta, veiðarnar verði hagkvæmari og nær engin hætta verði á umframafla. Útgerðir hafi ríkari ákvörðunarrétt um það hvenær veiðarnar eru stundaðar og hver dagafjöldi á sjó verður. Auk þess muni kostnaður við eftirlit minnka þar sem ekki þarf að fylgjast með fjölda daga á sjó.

Í starfshópnum áttu sæti þau Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Jón Gunnarsson alþingismaður og Erna Jónsdóttir lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.