Frumvarp um veiðistjórn grásleppu hefur verið birt á vef Alþingis.

Megintilgangur frumvarpsins er sagður vera að auka fyrirsjáanleika við veiðarnar og tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar.

„Með frumvarpinu er m.a. lagt til að taka upp aflamarksstjórnun við veiðar á grásleppu ásamt því að lögfesta staðbundin veiðisvæði grásleppu,” segir í greinargerð. „Þá er mælt fyrir um að hlutdeildarsetja grásleppu og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengin hefur verið á grundvelli réttar til grásleppuveiða og leyfis frá Fiskistofu sem skráð er á viðkomandi skip á afmörkuðu tímabili. Þá er mælt fyrir um að framsal aflahlutdeilda í grásleppu og flutningur aflamarks í grásleppu á milli staðbundinna veiðisvæða verði óheimill nema í undantekningartilvikum þegar náttúrulegar aðstæður breytast verulega. Þá er lagt til að 6 ráðherra verði heimilt að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti.“

Sambærilegt mál var flutt veturinn 2020–2021, en þá einnig með ákvæðum um veiðistjórn sandkola og hryggleysingja.

Á fimmta tug athugasemda voru sendar inn í Samráðsgátt stjórnvalda þegar frumvarpsdrögin voru kynnt þar. Við þeim athugasemdum sumum hefur verið brugðist, meðal annars með því að lengja viðmiðunartímabilið þannig að nú verði úthlutun kvóta miðuð við þrjú best bestu veipitímabil hvers skips á árunum 2014 til 2022.

„Rökin fyrir því að miða við þrjú bestu veiðitímabilin á þessum níu árum eru að grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geta því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu það ár. Þá eru aflabrögð misjöfn á milli ára og eftir svæðum. Sá mismunur jafnast út með lengra viðmiðunartímabili. Því er í frumvarpinu litið til lengri viðmiðunartímabils og málefnalegri sjónarmiða við úthlutun aflahlutdeilda í grásleppu. Þannig muni þeir sem nýlega hafa hafið grásleppuveiðar fá úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu sinnar síðustu ár.“