Allt frá því grásleppuhrogn byrjuðu að lækka í verði í lok vertíðar 2012, hefur gætt tregðu í sölu þeirra og verð sem fengist verið afar lág. Útflutningstölur Hagstofunnar sýna þetta glöggt þar sem á fyrstu 10 mánuðum ársins er verð á söltuðum grásleppuhrognum 42% lægra en það var á sama tímabili í fyrra, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.
Útflutningsverðmæti hrognanna á tímabilinu janúar - október er 554 milljónir á móti 1,1 milljarði í fyrra, en þess ber að geta að magnið hefur dregist saman um eitt þúsund tunnur.
Bent er á að þessi mikla verðlækkun eigi sér margar orsakir. Meðal þeirra er að markaðurinn hafi ekki þolað þær skörpu verðhækkanir sem urðu á tímabilinu 2009 til 2010. Verð hafi áfram haldist hátt fram yfir mitt ár 2012, þegar kaupendur kipptu að sér höndum. Í kjölfarið hafi birgðir safnast upp og færst að vissu marki til sjómanna.
Verðlækkun til sjómanna hefur einnig leitt til lægra verðs á fullunnum grásleppuhrognum - kavíarnum - og framan af minni framleiðslu. Nú virðist hins vegar dæmið vera að snúast við og lægra verð til neytenda farið að skila sér í aukinni sölu. Vonir standa því til að botninum sé náð og farið að grylla í betri horfur á markaði fyrir grásleppuhrogn. Þannig að það gangi eftir veltur þó allt á að veiði á næstu vertíð verði á hóflegum nótum, að hún verði ekki umfram eftirspurn, segir á vef LS.