Nýverið lauk tilraunaverkefni til framleiðslu á kollageni (hráefni til snyrtivöruframleiðslu) úr grásleppuhvelju og skiluðu þær ekki nægilega góðum árangri, að því er fram kemur á vef Matís. Áfram verður unnið að því að finna leiðir til að nýta aukaafurðir úr grásleppu.

BioPol sjávarlíftæknisetur á Skagaströnd, Háskólinn á Akureyri, og Seanergy í Færeyjum hafa undanfarin misseri unnið að verkefni er miðar að nýtingu á grásleppuhvelju til kollagenframleiðslu. Grásleppuhvelju var safnað á Íslandi og hún send til vinnslu í verksmiðju Seanergy sem stundar framleiðslu á kollageni úr fiskroði.

Sýnishorn voru send til Junca Gelatins á Spáni þar sem gæði og eiginleikar afurðarinnar var tekin út. Efnaeiginleikar og gæðaþættir voru borin saman við kollagen úr roði sem framleitt er af Seanergy.

Gæði framleiðslunnar reyndust ekki nægjanlega mikil í samanburði við hefðbundna framleiðslu. Fyrst og fremst voru það litur, seigja og gangsæi sem voru utan framleiðsluviðmiða. Talið er að í vinnsluferlinu hafi ekki tekist að fjarlægja nægjanlega vel fiskprótein og önnur efni sem voru áföst hveljunni þegar hún var tekin til vinnslu og þau hafi haft áhrif á gæði framleiðslunnar. Unnið verður áfram að því að finna leiðir til að nýta aukaafurðir hrognkelsa, segir ennfremur á vef Matís.