Vinnsla á grálúðu hófst í gær í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þetta er í fyrsta sinn sem grálúða er unnin í fiskiðjuverinu þar. Frá þessu er skýrt á heimasíðu Síldarvinnslunnar .
Þar segir að alls hafi borist 50 tonn til vinnslu. Anna EA veiðir grálúðuna í net lengst norður af landinu og ganga veiðarnar vel.
„Þetta er í fyrsta sinn sem grálúða er unnin hér í fiskiðjuverinu en þetta fer vel af stað,“ segir Eyðun Simonsen verkstjóri, sem rætt er við á vef Síldarvinnslunnar. „Við fengum mann frá Dalvík, sem þekkir vel til þessarar vinnslu, til okkar í gær og hann skoðaði aðstæður og leiðbeindi okkur. Við reiknum með að klára þennan fyrsta skammt fyrir helgi en síðan er von á öðrum skammti í næstu viku.“