Strax að afloknum sjómannadegi hélt frystitogarinn Barði NK í grálúðu- og ufsatúr. Haldið var í Seyðisfjarðardýpið og þar hefur skipið síðan verið á grálúðuveiðum.
Theodór Elvar Haraldsson skipstjóri segir á vef Síldarvinnslunnar að veiðiferðin hafi gengið vel í alla staði. Veiðin hefur verið á bilinu 350-500 kg á togtíma og það þykir ágæt grálúðuveiði. Allt frá því að skipið lét úr höfn hefur verið bongóblíða á miðunum og segir Theodór að það séu forréttindi að fá tækifæri til að vera á sjó í slíkri veðráttu.
Theodór segir að nú sé farið að hyggja að því að halda vestur og hefja ufsaveiðar þar og jafnvel verði siglt þangað á morgun. „ Það er brostin á mokufsaveiði á Halanum núna og við látum hana ekki fara framhjá okkur,“ sagði Theodór.