Frystitogarinn Barði NK hélt í grálúðu- og ufsaveiðar eftir sjómannadag. Hann hefur þó verið við grálúðuveiðar allan túrinn og aflað vel.
Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að til hafi staðið að skipið héldi til ufsaveiða vestur á Hala en þar sem sú veiði hafi staðið stutt hafi verið hætt við að fara þangað.
Theodór Elvar Haraldsson skipstjóri lætur vel af túrnum og segir að skipið sé að fyllast og því sé ráðgert að millilanda næstkomandi föstudag. „Við munum væntanlega koma inn á föstudagsmorgun og halda aftur til veiða á föstudagskvöld að löndun lokinni," segir Theodór.
„Aflinn hefur gjarnan verið um 500 kg. á togtíma að undanförnu og það þykir gott. Við erum að veiðum Utanfótar eins og sagt er, en þar er góð grálúðuslóð. Utanfótar er utan við Fótinn sem er norðaustur af Breiðdalsgrunni. Ég geri ráð fyrir að haldið verði áfram í grálúðunni að aflokinni millilöndun eða þá að við förum í ufsa ef hann gefur sig einhvers staðar“, segir skipstjórinn á Barða að lokum.