Grænlensku landsstjórninni hafa verið afhentar undirskriftir tvö þúsund sjómanna sem krefjast þess að kvótar grálúðu og þorsks innan skerja verði auknir á þessu ári. Þeir hafna því að vera vísað á félagsmálayfirvöld með framfærslu.
Grálúðukvótinn innan skerja er 20.500 tonn á þessu ári og hefur hann allur verið veiddur. Útgefinn þorskkvóti innan skerja er 10.000 tonn og kláraðist hann 25. september. Þá bættu stjórnvöld við 1.500 tonna þorskkvóta sem ætlaður er fyrir heimamarkaðinn. Því má bæta við að fiskifræðingar höfðu ráðlagt að engar þorskveiðar yrði leyfðar á þessu ári.