Grænlendingar gerðu fyrr á árinu kröfu um hlutdeild í makrílstofninum í NA-Atlantshafi á þeirri forsendu að makríllinn væri farinn að ganga inn í grænlenska lögsögu. Þessi krafa hefur fengið litlar undirtektir hjá hinum þjóðunum. Nú segja norsk yfirvöld hins vegar að ekkert sé því til fyrirstöðu að Grænlendingar geti tekið þátt í rannsóknum á útbreiðslu og stærð makrílstofnsins.
Í frétt í dag í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren er haft eftir Leif Nöttestad yfirmanni á norsku hafrannsóknastofnuninni að á síðasta sumri hafi ekki tekist að komast yfir allt útbreiðslusvæði makrílsins í rannsóknaleiðangrinum sem farinn var vegna þess að of fáum dögum hafi verið úthlutað til verkefnisins. Fjögur skip tóku þátt í honum, tvö frá Noregi, eitt frá Íslandi og eitt frá Færeyjum.
Í blaðinu lýsir Nöttestad sig fylgjandi því að Grænlendingum verði boðið að taka þátt í leiðangrinum framvegis en þar sem þeir eigi ekkert skip til þeirra verka væri líklega hagkvæmast að þeir semdu við Íslendinga um að leggja þeim lið.
Ann Kristin Westberg aðalsamningamaður Norðmanna í makríldeilunni segir í samtali við blaðið að hún sjái engar pólitískar hindranir í vegi þess að Grænlendingar verði ein ,,rannsóknaþjóðanna" líkt og Íslendingar og Færeyingar. Aðalatriðið sé að fá sem besta vitnesku um stærð og útbreiðslu stofnsins