KNAPK, samtök fiskimanna og veiðimanna í Grænlandi, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem staðhæft er að danska stjórnin hafi hlaupið frá ábyrgð sinni með því að beita sér ekki gegn banni sem Evrópusambandið hefur sett á sölu selskinna innan sambandsins.

Bent er á að selveiðar og selskinnaframleiðsla tryggi atvinnu um allt Grænland og þá sérstaklega í dreifðustu byggðunum.
KNAPK er þeirrar skoðunar að innflutningsbann ESB á selskinnum sé ólöglegt því það stríði gegn réttindum frumbyggja sem kveðið sé á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum sáttmálum.

Þar að auki hefur KNAPK áhyggjur af því að innflutningsbannið á selskinnum muni stuðla að stórfjölgun sela við strendur Grænlands sem skaða muni annað lífríki í hafinu og þar með afkomu sjávarútvegsins. Vaxandi stærð selastofna við landið sé tifandi tímasprengja.