Grænlendingar og Rússar hafa samið um gagnkvæmar veiðiheimildir í lögsögum ríkjanna á árinu 2015.
Samkvæmt samningnum mega Grænlendingar veiða 5.100 tonn af þorski, 500 tonn af ýsu og 500 tonn af rækju í Barentshafi og má meðafli af öðrum tegundum vera 10%
Í staðinn fá Rússar að veiða grálúðu við Grænland, nánar tiltekið 1.225 tonn við SV-Grænland, 550 tonn við NV-grænland og 600 tonn við A-Grænland. Auk þess 500 tonn af karfa við A-Grænland. Meðafli annarra tegunda má vera 10%.
Í frétt á vef grænlensku landsstjórnarinnar segir að rússneski grálúðukvótinn við Grænland sé sá sami og árið 2014 en karfakvótinn hafi verið minnkaður um 200 tonn.
Grænlenski þorskkvótinn í Barentshafi hefur verið minnkaður um 225 tonn milli ára en ýsukvótinn er sá sami og fyrr.