Grænlenskir embættismenn hafa gengið frá gagnkvæmum fiskveiðisamningi við Rússa fyrir árið 2013. Samningurinn verður lagður fyrir grænlenska þingið til afgreiðslu.
Samkvæmt samningnum fá Grænlendingar að veiða 5.900 tonn af þorski í rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Hér er um 600 tonna aukningu að ræða frá árinu í ár. Veiðar á ýsu eru hins vegar skornar niður um 970 tonn vegna slaks ástands ýsustofnsins. Í heild mega Grænlendingar veiða 530 tonn af ýsu í Barentshafi.
Rússar fá leyfi til að veiða 1.100 tonn af úthafskarfa í grænlensku lögsögunni á næsta ári á móti 1.200 tonnum í ár. Hins vegar er kvóti þeirra í grálúðu óbreyttur; þeir mega veiða 1.375 tonn við Austur-Grænland og 1.775 tonn við Vestur-Grænland.