Alþjóðahvalveiðiráðið, IWC, hefur samþykkt málaleitan Grænlendinga um hvalveiðikvóta til næstu fjögurra ára.

46 af aðildarþjóðum ráðsins greiddu atkvæði með en 11 voru á móti. Þrjár þjóðir sátu hjá. Samkvæmt samþykktinni mega Grænlendingar veiða 207 stórhveli á ári næstu fjögur árin.

Hvalirnir skiptast þannig við Vestur-Grænland: 164 hrefnur, 19 langreyðar, 10 hnúfubakar og 2 grænlandssléttbakar.

Við Austur-Grænland má veiða 12 hrefnur.

Finn Karlsen, sem fer með málefni sjávarútvegs, veiða og landbúnaðar í grænlensku landstjórninni, var ánægður með niðurstöðuna og segir að skynsemin hafi ráðið för.

„Nú verða hvalastofnarnir við Grænland nýttir á skynsamlegan hátt og á vísindalegum grunni. Niðurstaðan sýnir einnig að samstarf með öðrum hvalveiðiþjóðum á þessu sviði er aðferðin sem vísar fram á veginn,“ segir Karlsen í fréttatilkynningu.