Grænlenska sjávarútvegsfyrirtækið Polar Seafood býst við því að veiðar og vinnsla á uppsjávarfiski fái aukið vægi í grænlenskum sjávarútvegi á komandi árum og er farið að búa sig undir það.

,,Við sjáum að makríll er farinn að ganga inn í grænlenska lögsögu og síld mun sennilega gera það í auknum mæli. Við viljum taka þátt í þessum breytingum,“ segir Henrik Leth stjórnarformaður Polar Seafood í samtali við vefinn Undercurrentnews.com. Fyrirtækið keypti á síðasta ári 66% hlut í félaginu East Greenland Codfish sem gerði út uppsjávarskipið Eriku hér við land og fékk nýtt skip, Polar Amaroq, fyrir skemmstu. Síldarvinnslan á 33% í félaginu sem kunnugt er.

Fram kemur í viðtalinu við Leth að sjórinn við Grænland sé að hlýna og á sama tíma og þorskstofninn sé að ná sér á strik við landið sé rækjustofninn á niðurleið. Því sé brýnt fyrir fyrirtækið og grænlenskan sjávarútveg í heild að horfa til fleiri átta.

Rækjukvótinn við Grænland á árinu 2013 var minnkaður í 90.000 tonn sem er rúmlega 14% niðurskurður frá árinu áður. Leth segir að til greina komi að bæta við sig öðru uppsjávarskipi en fyrst þurfi að fá vissu fyrir því að makríllinn gangi inn í grænlenska lögsögu í miklu magni.