Grænlenska landsstjórnin hefur ákveðið að gefa út tilraunakvóta á síld og kolmunna í grænlenskri lögsögu á þessu ári til þess að kortleggja útbreiðslu þessara tegunda í lögsögu landsins. Kvótinn fyrir síld er 20.000 tonn og fyrir kolmunna 10.000 tonn.

Engin veiðigjöld verða lögð á þessar veiðar, en fram kemur að þær verða eingöngu leyfðar grænlenskum skipum til þess að skapa störf fyrir grænlenska sjómenn sem svo greiði skatt í Grænlandi. Með þeim hætti nýtist afraksturinn grænlensku samfélagi.

Kvótunum verður ekki úthlutað á skip heldur verða veiðarnar frjálsar þar til heildaraflanum er náð. Veiðar á makríl annars vegar og síld og kolmunna hins vegar skarast í tíma. Gert er ráð fyrir að makrílveiðarnar hefjist í júnímánuði, síldveiðar nokkru síðar en óvíst er hvenær kolmunnaveiðarnar geta byrjað.

Frá þessu er skýrt á vef grænlenska útvarpsins.