Fulltrúar Grænlendinga og Færeyinga hafa náð samkomulagi um gagnkvæmar veiðiheimildir á næsta ári. Þær eru óbreyttar frá fyrra ári að því undanskyldu að kvóti norsk-íslenskrar síldar sem Grænlendingar fá frá Færeyingum minnkar úr 3.000 tonnum í 2.350 tonn.

Samkvæmt samningnum er kvóti Færeyinga við Grænland sem hér segir: 100 tonn af grálúðu við NV-Grænland; 255 tonn af þorski í tilraunaveiðum við Austur-Grænland (meðafli af hvítlúðu og grálúðu má vera allt að 275 tonn); og 100 tonn af rækju í tilraunaveiðum við A-Grænland. Þar til viðbótar koma karfaheimildir sem ekki hafa verið ákveðnar.

Í staðinn fá Grænlendingar 60 fiskidaga á botnfiskveiðum við Færeyjar, 2.350 tonna síldarkvóta eins og áður kom fram og loks mega þeir veiða 2.000 tonn af grænlenska kolmunnakvótanum í færeyskri lögsögu.

Þá kom fram að Færeyjar og Grænland fá sameiginlega 1.241 tonna rækjukvóta á NAFO svæðinu við Kanada, Af honum koma 1.029 tonn í hlut Færeyinga en 212 tonn í hlut Grænlendinga.