Kolmunnaskipin koma nú hvert á fætur öðru með afla til löndunar í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Þetta kemur fram í frétt á vef Síldarvinnslunnar í gær.

„Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 3.000 tonn og landaði meirihluta aflans þar en færði sig síðan yfir á Seyðisfjörð og landaði þar því sem eftir var. Vilhelm Þorsteinsson EA kemur síðan til Seyðisfjarðar í dag með tæplega 2.700 tonn og Beitir NK er væntanlegur til Neskaupstaðar í kvöld með 2.500 tonn,“ segir á svn.is þar sem rætt er við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki.

Blíðuveður skipti miklu máli

„Við vorum að veiðum á gráa svæðinu og í suðausturhorni færeysku lögsögunnar. Þetta gekk alveg þokkalega en það er ekki jafn mikill kraftur í veiðunum og var í fyrra. Við tókum einungis eitt hol á dag þannig að það var lengi dregið. Holin í túrnum voru átta talsins og yfirleitt fengust á bilinu 350 – 450 tonn í hverju holi. Það sem skipti þó miklu máli var veðrið en það var sannkölluð blíða alla veiðiferðina,“ er haft eftir Hálfdan sem segir veðrið hins vegar hafa breyst.

Strax aftur á miðin

„Síðustu tvo daga er búin að vera bölvuð bræla og skipin hafa verið lítið að gera á miðunum. Vonandi lægir í dag. Í fyrra vorum við að kolmunnaveiðum á þessum slóðum nær allan janúar og í loðnuleysisárum hefur kolmunni verið veiddur þarna fram í febrúar. Venjulega hefur verið mest veiði fyrst eftir áramótin en síðan hefur heldur dregið úr. Við gerum ráð fyrir að halda á miðin strax að löndun lokinni í dag,“ segir Hálfdan ávef Síldarvinnslunnar.

Sama sagan hjá öðrum útgerðum

Svipaða sögu eru að segja af öðrum útgerðum. Til dæmis má nefna að Jón Kjartansson SU-111 kom til Eskifjarðar í fyrrinótt með 2.050 tonn af kolmunna og áður höfðu Guðrún Þorkelsdóttir SU-211 og Aðalsteinn SU-11 landað samtals um 3.500 tonnum fyrir Eskju.