Gott verð hefur fengist fyrir ufsa á fiskmörkuðum að því er fram kemur í spjalli Fiskifrétta við Þorvald Garðarsson, skipstjóra á krókaaflamarksbátnum Sæunni Sæmundsdóttur ÁR, í nýjustu Fiskifréttum.

Sæunn Sæmundsdóttir ÁR stundar yfirleitt línuveiðar en þegar rætt var við Þorvald í vikunni var hann á ufsaveiðum á handfæri. ,,Ég hef svolítinn ufsakvóta en hef ekki veitt hann undanfarin ár. Við höfum verið á línu og ufsinn hefur mikið farið í tilfærslur. Hins vegar hefur verð á ufsa rokið upp og er nú komið í 170-190 krónur á kílóið. Það er góð tilbreyting að fara smátíma á skak og reyna við ufsann,“ sagði Þorvaldur.