Sumarið hefur verið fengsælt hjá uppsjávarveiðiskipum. Alls hafa þau veitt um 230 þúsund tonn af makríl og norsk-íslenskri síld. Makrílveiðum er því sem næst lokið og hefur upphafskvótinn, tæp 155 þúsund tonn, náðst og vel það. Um 75% af heildarkvóta Íslands í norsk-íslenskri síld hafa veiðst.

Þessar upplýsingar koma fram í nýjustu Fiskifréttum. Þar er birtur listi yfir afla uppsjávarskipa í makríl og síld það sem af er árinu. Alls stunduðu 23 uppsjávarskip samhliða veiðar á makríl og síld. Vilhelm Þorsteinsson EA er aflahæsta uppsjávarskipið í þessum tegundum með samtals 20.387 tonn. Beitir NK kemur þar á eftir með 15.147 tonn og Börkur NK er í þriðja sæti með 14.660 tonn. Uppsjávarskipin einbeita sér nú að því að veiða norsk-íslensku síldina.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum .