Útgerðarfélagið GPG Seafood greinir frá því á samfélagsmiðlum að ágætlega gangi hjá skipum þess að fiska á línuna fyrir austan. Jökull ÞH-299 kom til Raufarhafnar í gær með rúmlega 80 tonn og Háey ÞH-295 er nú á leið til Raufarhafnar með fullfermi, 25 tonn.

Háey var við bryggju um helgina vegna brælu en landaði fullfermi á Raufarhöfn síðasta föstudag.
Minni báturinn, Háey II ÞH-275, hefur lítið getað sótt á miðin vegna veðurs. Fyrir helgi opnaðist þó smá gluggi og nýtti áhöfnin sér það og landaði rúmum 16 tonnum í 3 löndunum.