Hafrannsóknastofnun hefur birt niðurstöður marsrallsins. Þær benda til góðs ástands helstu botnfisktegunda og horfur eru á aukinni nýliðun í veiðistofna þorsks og ýsu. Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.
Þorskur
Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið. Mest fékkst af þorski utarlega á landgrunninu, frá Víkurál norður og austur um að Hvalbakshalla.
Stofnvísitala þorsks mældist svipuð og fyrir ári síðan. Vísitölur síðustu tveggja ára eru þær hæstu frá upphafi rannsóknanna árið 1985, meira en tvöfalt hærri en árin 2002-2008.
Hækkun vísitölunnar má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski. Í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 45 cm yfir meðaltali alls rannsóknatímabilsins, en minna mældist af 25-40 cm þorski sem rekja má til lítils árgangs frá 2013.
Árgangur 2014 mældist stór líkt og í síðustu stofnmælingu og fyrsta mat á 2015 árgangi bendir til að hann sé einnig stór.
Ýsa
Stofnvísitala ýsu hækkaði verulega á árunum 2002-2006 í kjölfar góðrar nýliðunar og aukinnar útbreiðslu norður fyrir land. Næstu fjögur árin þar á eftir fór vísitalan lækkandi og mældist nú svipuð því sem verið hefur frá 2010.
Lengdardreifing ýsunnar sýnir að 30-58 cm ýsa er undir meðaltali í fjölda, en stærri ýsa er yfir meðaltali. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að árgangurinn frá 2014 sé sterkur, en hann kom í kjölfar sex lélegra árganga. Fyrsta mæling á árgangi 2015 bendir til að hann sé undir meðalstærð.
Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum landið en meira fékkst af ýsu fyrir norðan land en sunnan. Breyting varð á útbreiðslu ýsunnar fyrir rúmum áratug, en árin 1985-1999 fékkst alltaf meira af ýsu við sunnanvert landið.
Gullkarfi
Gullkarfi fékkst víða en mest djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og sunnanverðum Vestfjörðum. Vísitala gullkarfa í marsralli hefur farið hækkandi frá 2008 og mælingar síðustu sjö ára hafa verið þær hæstu frá 1985. Í seinni tíð hefur sífellt minna fengist af smákarfa undir 30 cm.
Sjá nánar frásögn og skýringarmyndir á vef Hafró.