Árið 2016 var gott ár í dönskum sjávarútvegi. Heildaraflaverðmæti fiskiskipa hefur ekki verið hærra en frá árinu 2002, að því er fram kemur á vefnum nordjyske.dk.

Í heild var veltan í dönskum fiskveiðum 3,6 milljarðar danskra króna eða sem samsvarar um 58 milljörðum íslenskum krónum, þar af var aflaverðmæti fisks til manneldis um 2,9 milljarðar (47 milljarðar ISK).

Það er einkum gott verð á fiski til manneldis sem skýrir aukið aflaverðmæti. Á árinu 2016 var meðalverð á kíló um 9,84 krónur á kíló (160 ISK). Þetta er um 20% verðhækkun frá árinu áður. Einkum hafa tegundir eins og síld, rauðspretta og leturhumar hækkað í verði. Jafnframt hefur veiðin aukist um 2% og hefur veiði á rauðsprettu aukist mest. Í heild var landað um 297 þúsund tonnum af fiski til manneldis á síðasta ári.

Töluverður samdráttur varð hins vegar í veiðum danskra skipa á fiski sem fer í mjölframleiðslu. Mestur varð samdrátturinn í veiðum á sandsíli. Aflaverðmæti bræðslufisks minnkaðu um 27% milli ára, fór úr 960 milljónum 2015 (15,5 milljörðum ISK) í 698 milljónir 2016 (11,3 milljarða ISK). Alls var landað 343 þúsund tonnum sem er 37% samdráttur milli ára. Meðalverði á bræðslufiski var 1,72 krónur á kíló (28 ISK) sem er 18% hækkun frá árinu áður.