Ný alþjóðleg vísindagrein, birt í tímaritinu Ecology and Evolution, varpar nýju ljósi á lífssögu hákarls (Somniosus microcephalus) og bendir m.a. á mögulegar gotstöðvar suðvestur af Íslandi. Sagt er frá þessu á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Hákarl finnst víða í norðanverðu Atlantshafi og er talin vera ein langlífasta hryggdýrategund í heimi. Þekking á líffræði hans og lífssögu er þó afar takmörkuð. Rannsóknin byggir á 1610 skráningum af 11 hafsvæðum í norðanverðu Atlantshafi og er ein víðtækasta samantekt sem gerð hefur verið á útbreiðslu tegundarinnar m.t.t. lífsögu hennar. Í þessari rannsókn var nýtt víðtækt gagnasafn sem nær yfir 60 ára tímabil úr vísindaveiðum og hliðstæðum gögnum til að kanna útbreiðslu, bæði ungviðis og kynþroska dýra.

Mikilvægt framlag Hafrannsóknastofnunar

Meðal annarra niðurstaðna voru þær að líklegra var að finna kynþroska kvendýr í heitari og dýpri sjó. Ungdýr fundust víðs vegar á norðlægari slóðum en einnig í Skagerak (hafsvæði á milli Danmerkur og Noregs). Mikilvægt framlag Hafrannsóknastofnunar, sem lagði til ítarleg gögn úr áratugalöngum botnvörpu- og línuleiðöngrum við Ísland sýndu m.a. fram á að hafsvæði á Reykjaneshrygg og í Grænlandshafi kunni að skipta lykilmáli fyrir æxlun og lífsferil tegundarinnar en þetta eru einu svæðin þar sem nýgotin ungviði hákarls hafa fundist svo að vitað sé.

Mynd af hákarli tekin af Jónbirni Gunnarssyni. Birt í tengslum við vísindagrein á vef Hafrannsóknastofnunar árið 2020  um rannsóknir á áhrifum öldrunar á heila u.þ.b. 245 ára gamals hákarls en hákarlar geta orðið allt að 4-500 ára gamlir.
Mynd af hákarli tekin af Jónbirni Gunnarssyni. Birt í tengslum við vísindagrein á vef Hafrannsóknastofnunar árið 2020 um rannsóknir á áhrifum öldrunar á heila u.þ.b. 245 ára gamals hákarls en hákarlar geta orðið allt að 4-500 ára gamlir.

Rannsóknin, sem unnin var af vísindamönnum frá sex löndum, veitir mikilvægar upplýsingar um líffræði hákarls og voru íslensk gögn mikilvægur hlekkur við að draga upp heildarmynd af útbreiðslu og mögulegum búsvæðum hákarls á norðurslóðum.

Greinina í tímaritinu Ecology and Evolution má finna hér.