Vísindamenn við háskólann í Bresku Kólumbíu hafa nýtt sér Google Earth til að telja fiska í eldiskvíum í Miðjarðarhafi og til að leggja mat á framleiðslu eldisfisks á einstökum svæðum, að því er fram kemur á vef SeafoodSource.

Niðurstöður vísindamannanna voru birtar á netinu og þar segir einnig að þetta sé í fyrsta sinn sem myndir teknar úr gervihnetti séu notaðar til að meta framleiðslu sjávarafurða.

Vísindamennirnir töldu alls 20.976 kvíar fyrir fiskeldi og 248 sjókvíar fyrir túnfiskeldi í Miðjarðarhafinu. Miðað við stærð kvíanna, þéttleika fisksins, eldistíma fram að slátrun o.fl. var áætlað að framleiðsla svæðisins í eldisfiski næmi um 225 þúsund tonnum á ári og er túnfiskurinn ekki meðtalinn. Þessi tala kemur heim og saman við upplýsingar í heild frá þeim 16 ríkjum við Miðjarðarhaf þar sem fiskeldi er stundað.

Þessi aðferð, að taka Google Earth í þjónustu við eftirlit og söfnun upplýsinga, lofar því góðu um að nota megi gervihnattarmyndir til að sannreyna tölur sem einstök ríki gefa upp um framleiðslu á eldisfiski.