Stjórnvöld stefna að því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í haftengdri starfsemi verði orðin 10% árið 2030. Endurnýjanleg orka sem notuð er á innlendum fiskiskipum er í dag um 0,1%. Þetta markmið um orkuskipti er hluti þeirrar stefnu að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum, innan ekki svo langs tíma.

Þetta kemur meðal annars fram í þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem afgreidd var á síðustu dögum þingsins í vor – í þverpólitískri sátt. Málið er frá ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar komið, Þórdísi Kolbrúni R. Gylfadóttur.

Marviss uppbygging
Í tillögunni segir að vinna skuli markvisst að uppbyggingu nauðsynlegra innviða til að tryggja framgang orkuskipta. Stefnt skal meðal annars að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir árið 2025. Skal fjölda aðgerða vera lokið á næstu fimm árum.

Eitt þeirra lítur að starfshópi sem skoði aðgerðir til að auka hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í haftengdri starfsemi. Skoðaðir verði möguleikar á afslætti á gjöldum, svo sem kolefnisgjaldi, veiðigjöldum eða hafnargjöldum fyrir aukna notkun endurnýjanlegs eldsneytis. Skoðaðir verði möguleikar á söluskyldu á endurnýjanlegu eldsneyti til skipa. Dregið verði sem mest úr notkun svartolíu.

Holur hljómur
Því verður ekki neitað að þrátt fyrir háleit markmið er holur hljómur í þessum málflutningi. Þetta markmið er ekki nýtt, heldur óbreytt frá því sem áður var nema að það hefur verið fært fram um áratug. Íslensk stjórnvöld höfðu nefnilega sett sér það markmið í orkuskiptum yrði 10% af heildarnotkun skipaflotans árið 2020 – nú er það haftengd starfsemi, vissulega, en allt er þetta kunnuglegt.

Þetta var auk þess mjög í deiglunni fyrir nokkrum árum síðan. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni á stofnfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi árið 2014. Sagði ráðherra að gera þyrfti „...miklu, miklu betur,“ ef markmiðið ætti að nást en um brýnt umhverfis- og ímyndarmál sjávarútvegsins væri að ræða.

Markmið stjórnvalda hafa ekki verð studd neinum sértækum aðgerðum, svo auga verði á komið. Það er miklu frekar framtak einstakra útgerðarfyrirtækja sem hér hafa skipt máli og verulegur árangur hefur náðst. Reyndar hefur sjávarútvegurinn þegar náð viðmiði Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum og ný skip streyma til landsins sem eru mun umhverfisvænni en þau sem leyst eru af hólmi.

Marpol VI
Á einum stað í þingsályktuninni kemur fram að lokið verði við innleiðingu alþjóðlegra reglugerða á íslensku hafsvæði, og er Marpol-samningurinn sérstaklega nefndur. Um er að ræða alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum, þar sem fjallað er um takmörkun á útblæstri, losun á sorpi og efnaúrgangi í sjó. Hér skal hafa hugfast að um sjötta viðauka samningsins er að ræða sem hefur ekki verið lögfestur þó Ísland sé aðili Marpol-samningsins allt frá árinu 1985, og allir viðaukar samningsins utan þess sjötta hafi öðlast hér gildi.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, tók saman minnisblað um útblástur og landtengingar skipa sem hann kynnti á fundi stjórnar í fyrra – og var í framhaldinu sent Sigrúnu Magnúsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra. Þar kemur Marpol- samningurinn við sögu.

Gísli skrifar. „Um leið og hann [Marpol VI] hefur verið innleiddur er hægt að taka næsta skref, sem er að fá umhverfislögsögu Íslands (200 mílur) samþykkta sem ECA-svæði þar sem hæsta leyfilega magn brennisteins í eldsneyti er 0,1% (það sama og er leyfilegt í höfnum). Þetta þýðir að einungis megi nota skipagasolíu eða vistvænt eldsneyti á svæðinu,“ skrifar Gísli og áréttar að verið sé að vinna gegn súrnun sjávar og að efnaúrgangur frá óhreinum eldsneytisbruna fari í hafið – sem er risavaxið hagsmunamál fyrir Ísland,“ segir Gísli og vísar hér til svæða (ECA) þar sem takmarkanir á útblæstri eru í gildi.

Í þingsályktuninni segir. „Með aukinni umferð um Norðurskautssvæðið og aukinni umhverfisvernd sjávar er nauðsynlegt að Ísland fylgi alþjóðareglum á sjó.“

[email protected]