Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 105 tonnum á Seyðisfirði í gær. Aflinn var mestmegnis þorskur en einnig var dálítið af ýsu, karfa og ufsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri er býsna ánægður með túrinn.
„Þetta gekk bara vel. Við byrjuðum að vísu að leita að ufsa með afar litlum árangri en síðan tókum við þorskinn sunnan við Litla grunn á Héraðsflóanum. Loks var endað í ýsu á Tangaflakinu. Það var fínasta veður allan túrinn,“ segir Þórhallur.
Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi einnig við Róbert Inga Tómasson, framleiðslustjóra frystihússins á Seyðisfirði, og spurði hvernig fiskurinn úr Gullver væri.
„Það er staðreynd að það jafnast enginn fiskur á við þann sem Gullver kemur með. Þetta er gæðafiskur eins og ávallt. Um er að ræða fallegan millifisk sem hentar afar vel í vinnsluna hjá okkur. Við erum nú að framleiða ferska hnakka og bakflök og þessi fiskur hentar mjög vel í hnakkana sem fara beint á Frakkland,“ segir Róbert.
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða í fyrramálið.