Áform um landeldi í Vestmannaeyjum eru langt á veg komin og stefnt að því að fyrstu seiðin fari út vorið 2023 og slátrun getið hafist í byrjun árs 2025.
Innan fárra ára er stefnt að því að hefja fiskeldi á landi í Vestmannaeyjum. Hallgrímur Steinsson, framkvæmdastjóri félagsins Sjálfbært fiskeldi í Eyjum, og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri hafa nú þegar undirritað samkomulag þess efnis.
Ætlunin er að reisa laxeldisstöð í Viðlagafjöru og framleiða þar 5.300 tonn árlega til að byrja með. Reiknað er með því að 14-18 bein störf skapist, auk afleiddra starfa af ýmsu tagi.
Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður félagsins, segir þetta hafa verið í vinnslu í talsverðan tíma, enda henti Vestmannaeyjar að mörgu leyti vel til fiskeldis.
„Sjávarhiti er mjög hagstæður hér, einn sá hagstæðasti við Ísland. Hér er mikil þekking og hefð fyrir sjávarvinnslu og flutningum og sölu á fiski. Tengingar við Vestmannaeyjar, skipaflutningar og annað, eru mjög góðar, sérstaklega til Evrópu. Þannig að þetta liggur mjög vel við og menn hafa hér skoðað möguleikana á fiskeldi mjög lengi. En út af mikilli ölduhæð og öðru slíku myndi hefðbundið strandeldi aldrei takast út af þessum náttúruöflum.“
Miklu náttúruvænna
Þess vegna hafi fólk farið að skoða það að hafa eldið á landi.
„Það er miklu náttúruvænna. Það er enginn strokulax, engin lús, engin kynblöndun eða annað slíkt.“
Verkfræðistofan Efla var fengin til þess að sjá um frumhönnun og hjálpa til við framkvæmd umhverfismats.
„Það er bara í vinnslu. Við erum að vonast til þess að umhverfismatið liggi fyrir í byrjun næsta árs, og framkvæmdaleyfi þannig að við getum þá hafið framkvæmdir kannski með vorinu 2022. Seiðin færu þá væntanlega út um vor 2023, ef allt gengur eftir.“
Fyrsta slátrun geti því orðið 17 til 18 mánuðum síðar, eða í byrjun árs 2025. Hugmyndin sé að gera þetta í áföngum, fara fyrst í 5.300 tonn og bæta öðru eins við síðar.
Í góðum farvegi
„Þetta eru fyrirtæki og einstaklingar í Vestmannaeyjum sem mynda kjarnann,“ segir Lárus, spurður hvaða hópur stendur að þessum áformum. „Það er búið að skrifa undir samning við bæinn um nýtingu á landi og gerð aðalskipulags gerir ráð fyrir þessu, þannig að þetta er í mjög góðum farvegi og góðu samkomulagi við nærumhverfið.“
Viðlagafjara er í nýja hrauninu í Eyjum, rétt við innsiglinguna. Hún hefur hingað til verið notuð til efnistöku þannig að Lárus reiknar ekki með að neitt standi í vegi fyrir umhverfismati.
„Þetta er í ágætis farvegi og eigum ekki von á öðru en að leyfi og annað slíkt komi í gegn enda eru menn að horfa til þess með hvaða hætti er hægt að stunda fiskeldi með betri aðferðum án þess að valda verulegu tjóni á umhverfinu.“