Tilraunaveiðar í gildrur standa yfir í Vestmannaeyjum að undirlagi Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Sagt var frá verkefninu í Fiskifréttum í byrjun júní. Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins segir í samtali við Eyjafréttir að veiðin hafi gengið vonum framar. Það hafi komið á óvart hve margar tegundir sækja í gildrurnar.

„Við höfum fengið þorsk, keilu, löngu, steinbít, einn furðufisk en t.d. enga ýsu. Við vitum að á þessum tíma er ekki mikill fiskur við Eyjar en við erum að þreifa okkur áfram með réttu handtökin og að allt sé eins öruggt og hægt er,“ segir Hörður í samtali við Eyjafréttir.

Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja.
Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja.

„Við erum að aðlaga bát og búnað að þessari veiðiaðferð, erum að prófa græjurnar og byrjuðum með eina gildru til að sjá hvernig þetta kemur út. Smásaman höfum við verið að fjölga gildrunum og erum núna með tvær litlar trossur úti og eru fjórar gildrur í hvorri trossu, samtals átta gildrur. Erum að bæta búnað og tæki um borð í Friðriki Jessyni VE til að geta verið með fleiri gildrur undir,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja sem stýrir tilraunaveiðum í gildrur hér við Eyjar.

„Við höfum farið út sjö sinnum og lagt á jafn mörgum stöðum í kringum Heimaey. Reynt fyrir okkur á Rófuboðanum, Klakknum, Vorsabæjarmiðunum og gær lögðum við við Bjarnarey og Elliðaey, á Flatahrauninu, við Álsey og Sandagrunni. Einnig lögðum við humargildrur í tilraunaskyni vegna verkefnis sem á að fara af stað á næsta ári á þekktri humarslóð í Háfadýpinu en fengum því miður engan humar,“ segir Hörður sem segir að verkefnið í heild sinni ganga mjög vel.

Fyrst voru þeir fjórir í áhöfn en eru tveir í dag sem Hörður segir að sé nóg. „Þetta gengur mjög hratt fyrir sig og við erum að útbúa búnað til að geta verið með talsvert fleiri gildrur í hverri trossu. Í Kanada eru stærstu skipin með allt að 600 gildrur en við í augnablikinu einungis með átta. Við erum að athuga með búnað þannig að unnt verði að einn maður geti lagt og dregið gildrurnar.“

Sjá nánar umfjöllun Eyjafrétta hér.