Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar á sunnudagskvöld að lokinni fimm daga veiðiferð. Skipið var með góðan afla eða 113 tonn og var aflinn blandaður. Verið er að landa í dag. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar að vel hafi gengið að fiska en veðrið hafi verið leiðinlegt frá fimmtudegi.
„Við vorum að veiðum á okkar hefðbundnu slóðum, Lónsbugtinni, Berufjarðarál, Hvalbakshalli og Papagrunni. Þetta gekk ágætlega en á fimmtudaginn versnaði veðrið heldur betur. Það skall á skítviðri og það var haugasjór. Maður hélt að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af veðri á þessum árstíma en nú spáir hann hverri lægðinni á fætur annarri. Við reiknum með að fara út um hádegi á morgun en það á víst að lægja annað kvöld. Svo spáir hann nýrri lægð á föstudag þannig að það verður ekki lengi friður,“ segir Þórhallur.