Vinnsla á loðnuhrognum gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Í morgun var verið að kreista úr Beiti NK en Börkur NK og Birtingur NK eru væntanlegir til Neskaupstaðar með loðnu til kreistingar í kvöld og nótt. Í Helguvík er verið að kreista úr Vilhelm Þorsteinssyni EA.
Í Neskaupstað eru fulltrúar japanskra kaupenda loðnuhrogna og láta þeir vel af dvöl sinni þar. Katsjui Kawaharata sem venjulega er nefndur Kawa er einn þeirra Japana sem fylgjast með hrognavinnslunni í Neskaupstað. Kawa er hagvanur á Íslandi og er þetta 27. loðnuvertíðin sem hann fylgist með á landinu. Auk þess að fylgjast með hrognaframleiðslu í Neskaupstað hefur Kawa áður dvalið í Vestmannaeyjum, Grindavík, Sandgerði, Reykjavík, Helguvík, Seyðisfirði og Eskifirði í þeim tilgangi að fylgjast með loðnufrystingu og framleiðslu loðnuhrogna.
Aðspurður segir Kawi að loðnuhrogn séu töluvert notuð í sushi í Japan og auk þess borðuð með öðru fiskmeti, einkum sem meðlæti. Hann segir að það sé rangt að Japanir trúi því að hrognin hafi fjörgandi áhrif á kynlífið, heldur séu þau almennt álitin ljúffengur og heilnæmur matur.
Sjá nánar á vef Síldarvinnslunnar.