Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE hafa verið að gera það gott fyrir austan upp á síðkastið. Bergur landaði í gær í Neskaupstað og Vestmannaey kom þar til hafnar í dag. Bæði skip voru með fullfermi. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, sagði að veiðin hefði verið mjög góð í lok veiðiferðarinnar og í reynd hefði þá verið um aðgæsluveiði að ræða.
„Við fórum frá Eyjum og tókum eitt hol á Víkinni en héldum síðan á Höfðann þar sem við lentum í lokin á góðri veiði. Þá var haldið austur fyrir og byrjað á Gula teppinu og síðan á Grunnfætinum. Loks var veitt sunnan við Tólf tonna pyttinn og þar var mjög góð veiði. Þar fékkst fínn fiskur, bæði ýsa og þorskur,” sagði Ragnar.
Bergur hélt til veiða strax að löndun lokinni og hóf að toga við Bæli karlsins.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagðist vera mjög ánægður með aflabrögðin.
„Við byrjuðum túrinn á Gerpisflaki og síðan var haldið suður í Litladýpi. Við enduðum svo við Bæli karlsins í hörkuveiði. Þetta gekk vel í alla staði en veðrið hefði kannski mátt vera betra. Það var skælingur þarna. Við vorum fyrst og fremst að reyna við ýsu en aflinn var töluvert þorskblandaður,” sagði Birgir Þór.