Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, ásamt togaranum Jóhönnu Gísladóttur GK hafa öll landað síðustu dagana en þau hafa víða verið að veiðum. Páll Jónsson landaði um 80 tonnum í Grindavík á mánudaginn og var Benedikt Jónsson skipstjóri ágætlega sáttur við veiðiferðina. “Aflinn var langmest langa en við vorum einungis með 14 tonn af þorski. Við byrjuðum á að leggja í Grindavíkurdýpisbotni í austanfræsingi en færðum okkur síðan austur að Surtsey. Við lögðum á Stórahrauni sunnan við Surt og síðan var farið vestur fyrir Surtsey. Yfirleitt er góð þorskveiði á þessum slóðum á þessum árstíma en ekki núna. Hins vegar er hörku þorskveiði upp við landsteina. Við hér um borð erum bara kátir og getum ekki kvartað,” sagði Benedikt.

Jóhanna Gísladóttir landaði fullfermi á Djúpavogi á sunnudaginn. Heimasíðan heyrði hljóðið í Smára Rúnari Hjálmtýssyni skipstjóra. ”Við vorum að veiðum í Lónsbugtinni og það gekk mjög vel. Fullfermi fékkst á tæpum tveimur sólarhringum. Aflinn var langmest þorskur og ýsa. Það var farið út strax eftir löndun og haldið áfram á Lónsbugtinni í algerri blíðu,” sagði Smári Rúnar.

Línuskipið Sighvatur er að landa 96 tonnum í Grindavík í dag. Óli Björn Björgvinsson skipstjóri var spurður hvernig túrinn hefði gangið fyrir sig. ”Við byrjuðum í Grindavíkurdýpisbotni en þar var heldur lítið að hafa. Við færðum okkur á Eldeyjarbankann og þar voru teknar tvær lagnir. Þar var ágætis kropp. Við kipptum þvínæst yfir á Skerið. Tvær lagnir voru teknar þar og þar fékkst blandaður afli. Síðasta lögnin var síðan tekin á Eldeyjarbankanum. Rúmlega helmingur aflans í túrnum var þorskur en síðan var töluvert af löngu, keilu og ýsu. Haldið verður til veiða á ný strax í kvöld,” sagði Óli Björn.