Fyrirhuguð laxavinnsla Arctic Fish í Bolungarvík er gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið þar, segir Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri.

„Á okkar bestu árum í bolfiski erum við með tuttugu þúsund tonn sem koma í gegnum höfnina og þykir mjög myndarlegt en laxasláturhúsið er fyrir fimmtíu þúsund tonn,“ lýsir bæjarstjórinn þeim auknu umsvifum sem falist geti í nýju laxavinnslunni fyrir Bolvíkinga.

Þetta hefur gríðarleg áhrif á umsvifin í höfninni og margfaldar tekjur hennar. Í raun breytir þetta Bolungarvík á marga vegu,“ segir Jón Páll. „Á stuttum tíma hafa verið byggð þrjú verksmiðjuhúsnæði, tvö undir laxavinnsluna og eitt undir fiskmarkað. Þannig að Brjóturinn er gjörbreyttur.“

Mesta aksjón í áratugi

Miklar aðrar framkvæmdir eru einnig í gangi. Verið er að leggja nýjar vatnslagnir og ný vatnsveita er í byggingu. Skipulagt hefur verið nýtt íbúðahverfi fyrir þrjú hundruð manns og samið um byggingu á 25 íbúðum á reit í bænum.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Að útvega fólki húsnæði segir Jón Páll mestu áskorunina. Þá muni flutningar til og frá Bolungarvíkur aukast mikið.

„Bolungarvík er ekki lengur þetta klassíska sjávarútvegssamfélag þar sem er ein stór fiskvinnsla og þjónusta í kringum það. Við erum með fiskvinnslu sem er ein stoð og svo er laxavinnslan önnur stoð. Þá erum við landbúnaðarsamfélag með mjólkurvinnslunni Örnu sem er jafn stór í störfum talið og laxavinnslan til dæmis,“ segir bæjarstjórinn sem fæddur er 1975 á Ísafirði og ólst þar upp.

„Sumir segja að það hafi ekki meiri aksjón síðan Einar Guðfinnsson var upp á sitt besta,“ segir Jón Páll. Undir merkjum fyrirtækisins Einars Guðfinnssonar hafi meðal annars  verið rekin húsgagnaverslun, fataverslun og raftækjaverslun.

„Mín fyrsta minning frá Bolungarvík er þegar ég fór með mömmu og pabba að kaupa litasjónvarp,“ segir Jón Páll.

Hagsmunir alls Íslands

„Frá því að ég fór að muna eftir mínu umhverfi hefur verið varnarbarátta. Við höfum alltaf verið í keng. Á hverju ári hefur verið færra fólk en árið á undan. Alltaf var framtíðin verri en staðan var þann daginn. Öll þessi ár og áratugi var allt á leiðinni niður,“ segir Jón Páll. Nú hafi fólki hins vegar fjölgað og Bolungarvíkingar orðnir fleiri en eitt þúsund.

„Það er svo mikill grundvallarmunur að upplifa þessa stemningu eftir að hafa lifað allt mitt líf þar sem línuritið var niður á við. Fólk trúir því ekki hvernig þessi tilfinning er – að geta verið beinn í baki,“ segir Jón Páll og undirstrikar að innviði þurfi til að styðja við þann kraft sem keyri uppbygginguna nú áfram. Þetta eigi meðal annars við um raforkuöryggi og vegamál.

„Það er ekki verið að veita okkur einhverja ölmusu. Það eru hagsmunir Íslands að við komum laxinum, fiskinum og mjólkinni í burtu og á markað.“