Gott veður bæði í Noregshafi og í norsku fjörðunum leiddi til mjög góðrar síldveiði í síðustu viku. Alls veiddust 47.400 tonn af norsk-íslenskri síld, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins.
Sérstaklega var góð veiði í Noregshafi og þar fengust yfir 1.000 tonn í kasti. Síldin þar er stór, um 340 til 382 grömm að þyngd. Inni í fjörðunum veiðist smærri síld.
Verð á síldinni er breytilegt frá 4,65 krónur á kílóið fyrir síld veidd í lása og upp í 6,50 krónur. Meðalverðið í síðustu viku var um 5,90 krónur á kíló (um 108 ISK).