Ólympískar veiðar eru stundaðar um þessar mundir á sæbjúgum úti fyrir Austurlandi. Ástæðan er sú að sjómenn telja sig hafa heyrt orðróm um að hugsanlega verði sæbjúgu kvótasett á næstunni og því síðustu forvöð að næla sér í góða veiðireynslu. Átta bátar hafa stundað sæbjúgnaveiðar undanfarið og stærstur þeirra er Friðrik Sigurðsson ÁR, 300 tonna stálbátur frá Þorlákshöfn, sem er aflahæsti sæbjúgnabáturinn á þessu ári. Skipstjóri er vanalega Guðjón Jónsson en Lárus Grímsson hefur leyst hann af undanfarið.
„Þetta hefur gengið alveg sérstaklega vel hjá honum frænda. Hann hefur farið algjörlega á kostum karlinn,“ segir Lárus í upphafi samtals og vísar þar til Guðjóns. Hann segir menn hafi verið hálf trega í upphafi að setja svo stóran bát í sæbjúgnaveiðarnar en allt hafi gengið vel upp og reyndar farið fram úr björtustu vonum.
„Það er komið vel á annað þúsund tonn hjá okkur á þessu ári og nú reyni ég af veikum mætti að halda í við Guðjón. En það er straumur núna og tíðin orðin rysjóttari sem kemur í veg fyrir að þetta gangi nákvæmlega eins og við viljum þessa stundina. Við erum í hólfi hérna fyrir austan sem nær frá Glettingi og suðaustur í Hvítingja. Menn eru að berjast inni í þessu hólfi að ná sem mestum afla. Þetta eru eiginlega ólympískar veiðar því menn óttast kvótasetningu. Það er reynt að ná góðum tölum ef hinu opinbera skyldi detta í hug að fara að kvótasetja sæbjúgun,“ segir Lárus.
Veiða má 900 tonn í hólfinu og veiðarnar eru að verða langt komnar. Aðrir sæbjúgnabátar eru í þessu sama hólfi.
Sama hvar plógarnir eru settir út
„Okkur líður best í smástreyminu en nú er straumurinn að aukast og þá verður erfiðara að eiga við þetta. Við drögum tvo plóga og höfum verið að fá undanfarið um tonn í togi. Það getur orðið minna og líka meira ef við hittum á blett sem gefur. Blettirnir eru mjög misjafnar en sæbjúgun eru mjög víða. Það er nánast sama hvar við setjum plógana út; við fáum alltaf alla eitt kar, um 600 kíló. En veiðin er oft mest á blettum sem til dæmis liggja utan í klettum. Þetta er alveg heilalaust og dinglar bara um í strauminum. Finni maður einhverja rás þá er hægt að liggja á henni í tvo til þrjá daga og moka þessu upp.“
Friðrik Sigurðsson ÁR er tæplega 300 tonna bátur og tekur 60-70 kör í lest. Lárus segir að það þægilega við þessar veiðar er að það þarf ekkert að hafa fyrir aflanum. Sæbjúgun fylli sig af sjó og fara beint í kör þar sem þau lifa í tvo sólarhringa. Það þarf því ekki einu sinni að ísa aflann. Landað er daglega og aflinn fluttur landleiðina til Þorlákshafnar þar sem sæbjúgun eru fryst eða þurrkuð.
„Við höfum náð feiknagóðum tökum á þessu hérna á Friðriki Sigurðssyni og karlarnir lagt sig vel fram. Við erum sex í áhöfn og löndun mest á Reyðarfirði og Stöðvarfirði. Við höldum bara til í bátnum í landlegum en úthaldið er hálfur mánuður í senn.“