Loðnuskipin Jóna Eðvalds SF, Hoffell SU, Huginn VE og Sigurður VE eru í góðri loðnuveiði skammt út af sunnanverðu Snæfellsnesi. Jóhannes Danner, skipstjóri á Jónu Eðvalds, sagði reyndar að einhver breyting væri nú í aðsigi því svo virðist sem loðnuflekkurinn hafi brotnað upp í smærri einingar.

„Við erum hérna rétt austan við Arnarstapa og fengum 600 tonn í gær. Samtals erum við komnir með um 1.500 tonn sem er fullfermi. Við ætlum að landa á Þórshöfn en það er um 330 mílna sigling þangað en það er samt styttra en heim til Hornafjarðar,“ segir Jóhannes sem bjóst við að verða um 28 klukkustundir á leiðinni austur á Langanes.

Hann segir þetta góða loðnu en hlutfall hængs í aflanum hafi aukist eitthvað. Hrognapokinn sé orðinn laus í kvenloðnunni og ekki víst að margir dagar séu þar til hún hrygnir. Það kæmi honum ekki á óvart það myndi gerast á næstu tveimur til þremur dögum við sunnanvert Snæfellsnes eða vestan í nesinu. Menn hafi svo sem séð það áður.

Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds.
Jóhannes Danner skipstjóri á Jónu Eðvalds.

„Það er loðna mun víðar en menn eru alltaf að fara fremst í gönguna þar sem mestur hrognaþroski er. Menn hafa séð loðnu víða eftir suðurströndinni og ég frétti að Bjarni Ólafsson AK hefði verið við veiðar við Dyrhólaey í morgun. Næstu daga kasta menn á allt sem þeir sjá og það er loðna sem er nánast tilbúin til hrygningar,“ segir Jóhannes.

Hann segir þetta hörkuvertíð en vont hafi verið að missa janúar út. Það verði handleggur að ná restinni af kvótanum. Hann er 314 þúsund tonn en búið er að veiða 141.000 tonn, eða 45% af heildar aflamagni.

„Það þarf að koma góð vestanganga til þess að það hafist. Menn eiga von á þessu sem fannst í Húnaflóanum hingað vestur en það hefur enginn gefið sig að því ennþá að leita. Við vorum að ímynda okkur að sú ganga sem við erum að veiða úr myndi mæta vestangöngunni í Breiðafirði.“

Ásgrímur Halldórsson fór í gær af miðunum og landar í Þórshöfn og næsta skip til að landa þar verður Jóna Eðvalds. Menn megi ekki vera að því að bíða lengi eftir löndun því nú telur hver dagur þegar nálgast fer lok vertíðar.

„Það væri eftir öllu að fá brælutíð núna í restina. Það er ekkert sérstök spá framundan en samt ekki alveg bræluspá.“